news

Leikskólastarfið frá 4. maí

30. 04. 2020

Kæru foreldrar og forráðamenn,

Eins og flestir vita hefur verið tilkynnt um tilslökun á samkomubanni sem tekur gildi þann 4. maí. Leikskólinn mun þá starfa með hefðbundnum hætti en áfram verða í gildi sóttvarnarráðstafanir sem snúa m.a. að hreinlæti, sótthreinsun og aðgengi utanaðkomandi að skólabyggingum.

Líkt og áður eru foreldrar í forvarnarhlutverki þegar þeir koma inn í leikskóla og mikilvægt að þeir taki það hlutverk alvarlega. Handþvottur / hreinlæti og sprittun eru lykilþættir þar. Gott er að hafa í huga að ef margir eru samankomnir í fataklefum skólans biðjum við ykkur um að meta hvort að þið þurfið að hinkra aðeins fyrir utan á meðan aðrir foreldrar eru þar með sín börn.

Ef börnin eru úti þegar þau eru sótt eru foreldrar vinsamlegast beðnir um að takmarka viðverutímann á skólalóðinni eins og hægt er og virða tveggja metra regluna sem enn er í gildi.

Einnig höldum við áfram þeirri reglu að ekki megi ganga í gegnum miðhús leikskólans.

Þakkir til foreldra:

Með þessum breytingum sem nú taka gildi skiptir miklu að allir taka virkan þátt í að viðhalda þeim árangri sem hefur náðst í að stöðva kórónuveirufaraldurinn.

Við þökkum ykkur jákvæðni gagnvart þeim takmörkunum sem þurfti að setja á skólastarfið í mars og apríl og vonumst nú til að þessi breyting yfir í eðlilegt skólastarf komi til með að vera. Skólasókn hefur verið ágæt í samkomubanninu. Það er vel að verki staðið hjá þeim foreldrum sem komu börnum sínum í skólann á þessum tímum og fyrir það vil ég þakka ykkur kæru foreldrar. Það er nefnilega svo mikilvægt í ástandi sem þessu að reyna að viðhalda góðri rútínu, slíkt auðveldar og bætir líðan.

Við hlökkum til að fá börnin ykkar í hefðbundið skólastarf á ný.

Takk fyrir ríkan skilning, gott samstarf og góðar óskir.

© 2016 - Karellen